Vöðvakerfinu í baki er oft skipt upp í tvo flokka,
Annars vegar yfirborðs vöðva og hins vegar djúpa vöðvakerfið. Djúpa vöðvakerfið liggur næst hryggsúlu og er skipt í djúpa kviðvöðva, djúpa bakvöðva, grindarbotn og þind sem til samans mynda eina heild. Vöðvarnir virkjast í ákveðinni tímaröð og við eðlilegar aðstæður þá eiga þessir vöðvar að undirbúa líkamann fyrir hreyfingu en auk þess taka þeir þátt í hreyfingum hreyfingum hryggsins. Djúpvöðvakerfið gegnir því lykilhlutverki sem stöðugleikaþáttur fyrir hryggsúlu líkamans.
Styrktarþjálfun: Hægt er að þjálfa líkamann á ýmsa vegu, t.d. með eigin þyngd eða í líkamsræktartækjum. Allt hefur sýna kosti og galla. Styrktarþjálfun í líkamsræktartækjum hefur þann kost að tækin eru sérsniðin að ákveðnum vöðvum eða vöðvahópum. Í flestum tilfellum eru æfingar fyrir yfirborðsvöðva líkamans og þeir sem ekki hafa lært virkja djúpu vöðvana áður en farið er að styrkja vöðvana í tækjum missa af þeirri grunnvinnu sem þarf til að vera með sterkt bak og þar af leiðandi er hættan á því að það myndist ójafnvægi milli yfirborðs- og djúpvöðvakerfis og í framhaldinu skapað vandamál sérstaklega hjá þeim sem eru með undirliggjandi bakvandamál.
Æfingar með eigin þyngd eru mikið notaðar í dag eins og „cross fit“ og „ Boot camp“ . Æfingarnar eru á margan hátt gagnlegar því þær ganga út á það að virkja marga vöðvahópa í einu. Æfingarnar bjóða upp á fjölbreytileika sem getur aukið hreyfistjórn líkamans en gallinn er sá að ekki er hægt stilla þyngd eins vel og er sumum ofviða.
Bakvandamál: Þeir sem eru með undirliggjandi bakvandmál þurfa sérstaklega að leggja áherslu á að þjálfa upp djúpa vöðvakerfið strax í byrjun þjálfunar til að fá grunn fyrir framhaldið. Þjálfun á djúpa vöðvakerfinu í baki hefur verið rannsakað mikið síðustu ár og hafa niðurstöður sýnt fram á marktæka bætingu hjá ákveðnum hópi bak- og mjaðmargrindarsjúklinga. Markmið æfinganna er að styrkja djúpa vöðvakerfið í baki til að auka almenna færni við störf og leik. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að æfingarnar fyrir djúpvöðva baksins minnki verki, auki hreyfistjórn í baki og í framhaldinu sjálfsöryggi og almenna vellíðan.
Lokaorð: Það má segja að djúpa vöðvakerfið í baki sé undirstaðan til að ná árangri fyrir bakverkjasjúklinga en einnig fyrir fólk sem vill ná árangri í þjálfun og vera með sterkara bak.
Höfundur greinar – Gísli Sigurðsson