Í réttum stellingum-grein birt í Morgunblaðinu 19 mars 2009

ÞAÐ ER til mikils að vinna að venja sig á að beita sér rétt við vinnuna. Ekki er sama hvernig farið er með stoðkerfið í vinnunni en röng líkamsstelling getur farið illa með líkamann.

Álag sem safnast upp

Að sögn Gísla er ekki óalgengt að fólk geri sér ekki grein fyrir hvernig það leggur rangt álag á stoðkerfið við tölvuvinnu. Líkaminn hefur mikla aðlögunarhæfni og getur þolað ýmislegt en áhrifin af rangri líkamsstöðu og líkamsbeitingu leggjast saman yfir lengri tíma, læðast oft aftan að fólki og gera svo á endanum rækilega vart við sig með miklum verkjum:

„Mestu skiptir að búa þannig um hnútana að hægt sé að vinna í fjölbreytilegum stellingum, bæði sitjandi og standandi, og passa að líkaminn sé ekki í kyrrstöðu í lengri tíma heldur að fólk hreyfi sig reglulega. Ef unnið er sitjandi er gott að temja sér að standa upp a.m.k. einu sinni á klukkustund en rannsóknir styðja að æskilegast sé að hreyfa sig á 20 mínútna fresti ef því verður viðkomið,“ útskýrir hann.

Rangt stilltir stólar gera lítið gagn

„Í sitjandi stöðu þurfa báðir fætur að hvíla á gólfi, eða skemli fyrir þá sem eru styttri í annan endann, og með u.þ.b. 90 gráða beygju í mjöðmum. Stólsetan á að hallast um 5% fram á við og stólbakið að veita stuðning við mjóbakið en stóllinn þarf að vera stillanlegur þannig að auðvelt sé að breyta um vinnustellingu yfir daginn.“

Stólarmar segir Gísli að geti verið bæði til gagns og ógagns: „Ef þeir eru rangt stilltir veita þeir ekki réttan stuðning við handleggi og auka álag á háls og herðar. Einnig geta armarnir komið í veg fyrir að hægt sé að sitja nógu nálægt borðinu,“ segir hann. „Ef allt er eins og það á að vera hvílir líkamsþunginn á setbeinunum í sitjandi stöðu, og þá næst rétt líkamsstaða upp allan líkamann.“