Grein um bakverki-birt í Morgunblaðinu 5 .sept. 2008

Æ, æ, ó, ó mér er svo illt í bakinu…

Gísli Sigurðsson skrifar um verki í stoðkerfi

ÞAÐ er algengt að heyra þessa setningu óma í íslensku samfélagi í dag þar sem mjög margir einstaklingar eru bakveikir. En hvað er hægt að gera fyrir baksjúklinga? Flestir vita svörin við þeirri spurningu eða hvað? Gömlu húsráðin að leggjast í rúmið og bíða eftir bata eða gera „ekkert“ eru löngu úreltar aðferðir. Með auknum rannsóknum og þekkingu hefur meðhöndlun baksjúklinga fleygt fram þó öll svör séu ekki alltaf fyrir hendi. Ástæður fyrir bakvandmálum eru margþættar og má þar helst nefna nútíma lifnaðarhætti, m.a. kyrrsetu, hreyfingarleysi, einhæfa líkamsstöðu og ranga líkamsbeitingu. Auk þess eru offituvandamál stóraukin vandamál í hinum vestræna heimi og auka til muna líkurnar á stoðkerfiseinkennum. Eru bakverkir þar engin undantekning. En hvað er til ráða til að minnka bakverki og lina þjáningar? Fyrsta skrefið er að leita til fagaðila og eru sjúkraþjálfarar sú starfstétt sem hefur mesta sérþekkingu í hreyfi- og stoðkerfinu en rúmlega 60% íbúa hér á landi hafa leitað til sjúkraþjálfara með sín vandamál á síðustu 10 árum. Verkir eru ein algengasta ástæða fyrir komu skjólstæðinga til sjúkraþjálfara en því miður bíða allt of margir með að fá hjálp þar til ástandið er orðið slæmt og bakverkirnir óbærilegir. Bakvandamálum er skipt í marga undirflokka en meðferð án skurðaðgerðar er oftast fyrsta val í meðhöndlun bakverkja. Í mörgum tilfellum getur sjúkraþjálfun hjálpað baksjúklingum að ná bata en greining og mat á einkennum skipta mestu máli í upphafi meðferðar til að hægt sé að meðhöndla undirliggjandi vandamál. Þegar bata er náð er mikilvægt að halda áfram að vinna að bættri heilsu en þá þarf að leggja línurnar fyrir framtíðina með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Í dag vinna flestir sjúkraþjálfarar út frá bestu fáanlegum rannsóknum (evidence based). Rannsóknir hafa sýnt fram á að mikilvægt sé að sjúkraþjálfarinn og skjólstæðingur vinni saman að markmiðum og deili ábyrgðinni sameiginlega. Með raunhæfum markmiðum þar sem skjólstæðingur tekur virkan þátt í ákvarðanatöku og er tilbúinn að taka ábyrgð á eigin heilsu undir leiðsögn og handleiðslu sjúkraþjálfarans er hægt að ná bestum árangri. Með aukinni fræðslu næst enn betri árangur en fræðsla er sá þáttur meðhöndlunarinnar sem er því miður oft vanmetinn. Fræðsla um rétta líkamsbeitingu, setstöður og vinnustellingar ætti að hefjast strax í barnaskólum og síðan á öllum stigum þjóðfélagsins. Fræðsla sem inniheldur útskýringar á hreyfi- og stoðkerfinu, hvað þarf að varast og hvaða þætti þarf að leggja áherslu á til að viðhalda góðri heilsu í nútíma-kyrrsetuþjóðfélagi er gagnleg og líkleg til að minnka þjáningar skjólstæðinga og fækka veikindadögum og þar með spara miklar fjárhæðir í heilbrigðiskerfinu. Fræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir er það sem koma skal en það hefur sýnt sig að ef fyrirbyggjandi aðgerðum er rétt framfylgt má minnka töluverða hættu á bakverkjakasti og endurteknum bakverkjaköstum. Þess ber að geta að endurtekin bakverkjaköst eru oftar en ekki svæsnari og kvalafyllri en oft tekur lengri tíma fyrir skjólstæðinga að ná sér af fyrsta bakverkjakasti. Fyrirbyggjandi aðgerðir og fræðsla eru það sem koma skal, en fyrirtæki, sveitarfélög og ríki ættu að huga betur að þessum þáttum og fjárfesta til framtíðarinnar.

Það má með sanni segja að sjúkraþjálfun á Íslandi sé framsækið fag þar sem enn fleiri sjúkraþjálfara fara í framhaldsnám og sérhæfingu sem nýtist skjólstæðingum vel. Rannsóknum tengdum sjúkraþjálfun sem eru vel framkvæmdar og samkvæmt traustri aðferðafræði fjölgar sífellt og er nú hægt að vinna í síauknum mæli út frá viðurkenndum aðferðum (evidence based practice) sem gagnast vel við hinum ýmsu stoðkerfis- og hreyfivandamálum sem eru að aukast í vestrænum kyrrsetuþjóðfélögum. En betur má ef duga skal ef árangur á að nást í meðhöndlun baksjúklinga og því mikilvægt að landsmenn hugi betur að sinni heilsu.